




Hvalárlína 1 og Miðdalslína 1
Landsnet hefur hafið umhverfismat fyrir Hvalárlínu 1 og Miðdalslínu 1. Gert er ráð fyrir að vinna við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna taki um 2 - 3 ár.
Fyrst er unnin matsáætlun sem skilgreinir hvaða valkostir verða teknir til skoðunar í umhverfismati, nauðsynlegar rannsóknir og hvernig mati á áhrifum verður háttað. Að rannsóknum loknum verður skrifuð umhverfismatsskýrsla sem fjallar um umfang framkvæmda, umhverfisáhrif valkosta, mótvægisaðgerðir og þann kost sem Landsnet leggur til.
Hvalárlína 1 er tenging nýs viðskiptavinar, það er tenging frá Hvalá inn á nýjan tengipunkt flutningskerfisins í Ísafjarðardjúpi. Hvalárvirkjun er 55 MW vatnsaflsvirkjun sem tryggir aukið raforkuöryggi og afhendingu raforku á Vestfjörðum.
Miðdalslína 1 er útvíkkun á meginflutningskerfi Landsnets og tengir nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi við núverandi flutningskerfi á Vestfjörðum til að tryggja raforkuöryggi og raforkuafhendingu víðar um Vestfirði.
Tímalína

Tilkynningar
Niðurstöður valkostgreiningar liggja fyrir og verður matsáætlun, ásamt valkostagreiningu, send til Skipulagsstofnunar í yfirlestur á næstu dögum.
Því boðum við til kynninga á niðurstöðum valkostagreiningar og matsáætlunar á eftirfarandi dagsetningum og staðsetningum:
3. júní kl. 17 á Café Riis – Pakkhúsið Hólmavík FRESTAÐ VEGNA VEÐURS!
Vegna vonskuveðurs neyðumst við til að fresta þessum fundi. Nánari upplýsingar verða veittar síðar.
5. júní kl. 17 á Nordica Hótel Reykjavík
Þessi kynning er hugsuð fyrir landeigendur en verður einnig opin fyrir þau sem eru í verkefnaráði og sjá sér ekki fært að mæta á Hólmavík.
Boðið verður upp á fjarfund þann 5. júní.
Landsnet hefur hafið undirbúning á umhverfismati fyrir Hvalárlínu 1 og Miðdalslínu 1 vegna tengingar við Hvalárvirkjun. Eitt af fyrstu skrefunum er greining á valkostum sem verða til umfjöllunar í umhverfismati. Vinnustofur voru haldnar með verkefnaráði og landeigendum seinni part janúar 2025. Landsnet vinnur nú að greiningu á þeim valkostum sem ræddir voru og komu fram á vinnustofum. Niðurstöður valkostagreiningar verða birtar í matsáætlun og þar mun jafnframt koma fram hvaða valkostir verða til umfjöllunar í umhverfismati.